- Tannlæknaþjónustan.is - http://tannlaeknathjonustan.is -

Munnþurrkur

Hvað er munnþurrkur?

Einn af hverjum fimm fullorðnum þjást af munnþurrki. Munnþurrkur (xerostomia) er ástand þar sem munnvatnsframleiðsla er af einhverjum orsökum minni en hún á að vera og í alvarlegum tilfellum, engin.

Munnþurrki fylgja alls kyns einkenni frá munni auk þess sem einkenni frá öðrum stöðum, t.d. augum, eru oft til staðar. Ástandið er oftast afleiðing af sjúkdómum eða lyfjagjöf og er í flestum tilvikum tengt  of lítilli innkirtlastarfsemi í líkamanum.

Munnþurrkur hefur marvísleg áhrif á starfsemi líkamans og skerðir verulega lífsgæði þeirra sem verða fyrir honum. Tal, bragðskyn, tygging, kynging, lyktarskyn, sjón og jafnvel kynlíf verður fyrir barðinu á þurrkinum. Tannheilsa er einnig í hættu.

Hvað orsakar munnþurrk?

Ein helsta ástæða munnþurrks er aukaverkun vegna inntöku lyfja. Aðrar ástæður geta verið munnöndun, skert tyggigeta, Sjögrens sjúkdómur og geislun á höfuð og hálssvæði.

Yfir 1800 skráð lyf hafa áhrif á munnvatnsframleiðslu. Áttatíu prósent af tíu algengustu lyfjunum í Bandaríkjunum valda munnþurrki. Helstu flokkar lyfja sem hafa þessa aukaverkun eru blóðþrýstingslyf, kvíðastillandi lyf, þunglyndislyf, ofnæmislyf, megrunarlyf, Parkinsons lyf og verkjalyf.

Hvaða áhrif hefur munnþurrkur á tannheilsu?

Munnþurrkur getur á skömmum tíma breytt munnheilsu okkar  til hins verra. Þar sem munnvatn hefur margþættan tilgang í munninum  getur skortur á því haft slæmar afleiðingar fyrir tannheilsuna.

Munnvatn smyr munnslímhúðina og hjálpar til við tyggingu, tal, kyngingu og fleira. Munnvatn ver munnslímhúðina fyrir sýkingum og hlutleysir sýrur. Munnvatnið hjálpar líka til við sjálfhreinsun tanna.

Skortur á munnvatni eykur hættu á sýkingum í slímhúð, sérstaklega sveppasýkingum. Hættan á tannskemmdum stóreykst og skemmdir verða á tönnum og tannflötum sem annars skemmast varla. Einnig verður meiri hætta á skemmdum á rótaryfirborði tanna. Tannskemmdirnar verða oft mjög stórar á stuttum tíma.

Greining á munnþurrki

Til að greina hvers vegna munnþurrkur er til staðar getur þurft að gera mismunandi próf. Taka þarf nákvæma sjúkrasögu, kanna hvaða lyf er verið að taka og ef einhverjir sjúkdómar hafa verið greindir hjá viðkomandi sjúkling. Einnig þarf að gera nákvæma skoðun á tönnum og munni. Hægt er að taka mismunandi munnvatnspróf sem mæla flæði og gæði munnvatnsins. Stundum þarf einnig að taka blóðpróf ef grunur er um undirliggjandi ógreindan sjúkdóm.

Hvað er til ráða?

Þar sem munnþurrkur orsakast af mörgum ólíkum þáttum eru mismunandi leiðir til að ráða bót á honum. Í þeim tilfellum sem munnþurrkur er afleiðing lyfjatöku er stundum hægt að hætta eða minnka inntöku lyfjanna eða skipta yfir í annað lyf. Ef munnþurrkur er afleiðing sjúkdóms er stundum hægt að minnka munnþurrk með því að meðhöndla sjúkdóminn eða ná betri tökum á honum með lífstílsbreytingum.

Stundum er ekki hægt að minnka eða losna við munnþurrk. Þá þarf að gera það besta úr stöðunni með því að fara eftir ákveðnum ráðum.

  • Drekka mikið af vatni og oft yfir daginn. Súpa oft á vatni meðan verið er að borða til auðvelda tyggingu og kyngingu og auka bragðskyn. Gott er að vera með vatnsbrúsa og súpa á vatni öðru hvoru. Einnig vera með vatn til taks við rúmið á nóttunni.
  • Örva munnvatnsflæðið.
    • með því að borða mat sem krefst tyggingar.
    • með því að tyggja sykurlaust tyggó.
    • með því að sjúga sykurlausar töflur með súru bragði (fást í apótekum).
    • með því að sjúga ólífustein, sítrónu eða límónu börk.
  • Vernda harða og mjúka vefi munnsins með því að
    • bursta tennur vandlega kvölds og morgna og eftir máltíðir
    • nota tannþráð daglega
    • nota flúortannkrem og ekki skola það úr munninum eftir burstun
    • hreinsa yfirborð tungunnar með tungusköfu daglega
    • minnka neyslu á sykri og gæta sérstaklega að tíðni neyslunnar. Mikilvægt er tennurnar fái góða hvíld milli máltíða þar sem einskis er neytt nema vatns.
    • einnig skal gæta sérstaklega að neyslu allrar kolvetnaríkrar fæðu sem situr á tönnunum eftir máltíðir og getur valdið tannskemmdum.
    • reykið ekki – reykingar auka munnþurrk.
    • hættið eða minnkið neyslu áfengis.
    • hættið eða minnkið neyslu koffíndrykkja.
    • tyggið mat hægt og vandlega og súpið á vatni með
    • gervimunnvatn eða gel getur hjálpað til að smyrja slímhúðin og bætt líðan
    • farið reglulega til tannlæknis.

Tannlæknirinn getur líka skrifað lyfseðil fyrir sérstaklega flúorríku tannkremi ætlað fyrir fólk í áhættu .

Mikið úrval vöru til að lina einkenni og afleiðingar munnþurrks er á markaðnum. Tilgangurinn er að bæta líðan og minnka líkur á tannskemmdum og öðrum fylgikvillum. Mjög misjafnt er hvað hentar hverjum. Leitaðu upplýsinga hjá tannlækni eða í apóteki.

Nánari upplýsingar um munnþurrk má finna á síðunni www.drymouth.info.  Stuðst var við síðuna við gerð þessa upplýsingablaðs.

Tannlæknaþjónustan.is Austurvegi 10, Selfossi
482-3333 mottaka@tannalfur.is
Tannlæknaþjónustan.is Austurvegi 10, Selfossi 482-3333 mottaka@tannalfur.is