- Tannlæknaþjónustan.is - http://tannlaeknathjonustan.is -

Tannheilsa á meðgöngu

Meðganga hefur lítil áhrif á tannheilsu nútímakonunnar

Ekki er talin ástæða til að óttast auknar tannskemmdir eða tannlos á meðgöngu ef allt er með eðlilegum hætti.  Áður fyrr var talið að meðganga hefði slæm áhrif á tannheilsu en rannsóknir hafa sýnt að í flestum tilvikum á það ekki við rök að styðjast heldur skiptir meira máli hvernig tannheilsan var áður hjá viðkomandi konu.    Aukin meðvitund um heilsurækt á meðgöngu, þar með talin umhirða tanna, hefur gert áhrif meðgöngu á tannheilsu hverfandi.

Matarvenjur breytast stundum á meðgöngu.  Ógleði getur leitt til tíðra aukabita og sumar konur fá sterka löngun í sætindi.  Uppköst gera munnvatnið súrt og geta tennur þá frekar skemmst eða eyðst.  Skolið munninn vandlega eftir uppköst, vandið fæðuvalið og varist bita á milli mála.  Skolun með flúorskoli og notkun sykurlauss tyggigúmmís getur hjálpað til að viðhalda góðri tannheilsu þegar um uppköst eða bakflæði er að ræða.

Hormónabreytingar

Hormónabreytingar á meðgöngu valda tannholdsbólgum og aukinni blæðingu úr tannholdi.  Mikilvægt er að halda áfram góðri burstun og tannþráðsnotkun þótt blæði.  Bursta skal tennur amk tvisvar á dag og nota tannþráð einu sinni á dag.  Ef tannhirða er góð valda þessa tímabundu bólgur engum skaða í annars heilbrigðum munni.

Tannskemmdir

Munið að sífellt nart skemmir tennur.  Eftir hverja máltíð þurfa tennurnar tíma til að jafna sig og endurheimta steinefni sem leysast út í munnvatnið.  Hæfileg tíðni fæðuinntöku er að hámarki 6 sinnum á dag.  Drekkið einungis vatn á milli mála.

Njótið meðgöngunnar

Munið að meðganga er tímabundið ástand sem skal njóta eins og kostur er.  Hugið að heilsunni, sjálfra ykkar og barnsins vegna.

Tannlæknaþjónustan.is Austurvegi 10, Selfossi
482-3333 mottaka@tannalfur.is
Tannlæknaþjónustan.is Austurvegi 10, Selfossi 482-3333 mottaka@tannalfur.is