Orkudrykkir og tannheilsa
1. ágú. 2025

Á níunda áratugnum fór að bera á skaða á tönnum unglinga sem varla þekktist eða hafði sést á Íslandi áður. Tennurnar voru mattar, þunnar og og misstu form og lögun. Þetta hélst í hendur við þá þróun að farið var að selja gosdrykki í stærri umbúðum og þeir urðu meiri neysluvara á heimilum en áður hafði verið. Tengsl glerungseyðingar og gosdrykkju voru staðfest í rannsóknum sem að stórum hluta fóru fram á Íslandi. Tannlæknar urðu meðvitaðir um vandann og almenn vitundarvakning varð um skaðsemi gosdrykkja fyrir tennur. Þar var horft til bæði sykurinnihalds þeirra, sem leiddi til aukinna tannskemmda, en ekki síður til glerungseyðingarinnar sem var hinn nýji stóri vandi. Töluverður árangur náðist í glímunni við Karíus og Baktus og flestir foreldrar urðu meðvitaðir um skaðann sem getur hlotist af óhóflegri gosneyslu. En markaðsöflin finna sér alltaf nýjar leiðir og nú eru það orkudrykkirnir.
Sala og neysla á svokölluðum orkudrykkjum hefur margfaldast undanfarin ár og er þar öflugri markaðssetningu, sérstaklega meðal ungs fólks, um að kenna. Nýir spennandi drykkir eru stöðugt að koma á markað og litskrúðugar umbúðir og nýjar bragðtegundir heilla. Flestir eru þó farnir að gera sér grein fyrir því að orkudrykkir eru ekki nein hollustuvara en hvað er það sem gerir þá slæma fyrir heilsuna og þá sérstaklega tannheilsu?
Hvaða drykkir eru orkudrykkir?
Byrjum á því að kíkja á hvað það er sem við köllum orkudrykki. Með orkudrykkjum er átt við drykki sem innihalda koffín og eru þar af leiðandi örvandi. Í flestum tilvikum eru þessi drykkir sykurlausir og kaloríusnauðir og innihalda enga eiginlega orku. Í þá er hins vegar gjarnan bætt ýmsum efnum sem eiga að vera góð fyrir líkamann, svo sem vítamínum, amínósýrum og kollageni.
Annar flokkur drykkja sem gjarnan eru kallaðir orkudrykkir eru íþróttadrykkir. Það eru drykkir sem innihalda ýmis sölt og efni sem tapast úr líkamanum til dæmis við æfingu eða veikindi og eru ætlaðir til að bæta upp fyrir það. Þessir drykkir innihalda ekki koffín og geta verið ýmist sykraðir eða með gervisætu.
Gosdrykkir sem innihalda koffín, svo sem kók, sykrað eða ósykrað, mætti flokka með orkudrykkjum enda innihaldið svipað fyrir utan bætiefnin. Kóladrykkur inniheldur 65 mg koffín í hálfum lítra en flestir orkudrykkir eru með hámark leyfilegs koffíns sem er 160 mg í hálfum lítra. Kaffibolli inniheldur 250 mg af koffíni í hálfum lítra en yfirleitt er drukkið minna magn af kaffi í einu, einn bolli er með um 50 mg koffíns. Kaffi er ekki glerungseyðandi.
Hvað gerist í munninum þegar þú drekkur orkudrykk?
Orkudrykkir og gosdrykkir eiga það allir sameiginlegt að innihalda sýrur og vera með afar lágt sýrustig eða ph gildi. Súrir drykkir lækka sýrustig í munni og við það leysast upp efni af yfirborði glerungs og fara út í munnvatnið. Ef lækkun á sýrustigi stendur yfir í mjög stuttan tíma og enginn súr drykkur kemur í munn í nokkra klukkutíma skila efnin sér til baka á yfirborð tannanna. Ef hins vegar er sífellt verið að súpa á súrum drykk helst sýrustigið lágt og efni tapast í sífellu út í munnvatnið og fara sína leið. Smá saman þynnist yfirborð glerungs og tennur eyðast og tapa lögun sinni. Þegar eyðingin nær í gegnum glerunginn og inn að tannbeininu sem er þar undir verður ferlið margfalt hraðara.
Hvernig líta tennur út sem eru með glerungseyðingu?
Tannlæknir getur séð glerungseyðingu á byrjunarstigi með því að þurrka tennurnar og skoða vandlega með góðu ljósi. Í stað þess að vera glansandi og með fínlega hrufótta áferð eru glerungseyddar tennur mattar og glerungurinn orðin sléttur og fínlegar hrufurnar farnar. Þegar glerungseyðing heldur áfram missa tennur lögun sína og geta orðið viðkvæmar. Tennur með þunnan glerung eru líka gulari þar sem tannbeinin skín í gegn eða er orðið berað.
Framtennur þynnast mest innanfrá. Kantur þeirra verður glerþunnur og myrkrið í munninum skín í gegn þannig að kanturinn virðist bláleitur. Þessi þunni kantur byrjar síðan að brotna upp og eyðast þannig að tönnin styttist.
Jaxlar eyðast mest á bitfletinum. Tindar tannarinnar lækka og eyðast og slitdalir og lægðir myndast á bitfletinum. Tönnin getur orðið viðkvæm að bíta með.
Verða allir neytendur orkudrykkja fyrir barðinu á glerungseyðingu?
Það er einstaklingsbundið hversu mikil glerungseyðing verður við óhóflega neyslu gosdrykkja og orkudrykkja. Unglingar með nýlegar fullorðinstennur í munni verða oft mjög illa úti þar sem yfirborð tannanna er mjög viðkvæmt og leysist auðveldlega upp. Með aldrinum herðist yfirborðið og stendur betur gegn sýrunni. Þeir fullorðnu einstaklingar sem drekka orkudrykki í dag hafa yfirleitt ekki verið með glerungeyðingu á unglingsaldri þar sem þessir drykkir voru ekki á markaði í slíkum mæli sem nú er. Við eigum eftir að sjá hvernig tennur unglinga dagsins í dag eldast með stöðuga neyslu orkudrykkja sem lífstíl frá unga aldri.
Þættir sem geta aukið glerungseyðingu hjá einstakling eru til dæmis:
-Ungur aldur, nýlegar fullorðinstennur
-Bakflæði
-Tannagnístur
-Munnþurrkur
-Léleg gæði munnvatns
-Mjög tíð neysla súrra drykkja
Hvað er hægt að gera til að lágmarka áhættuna ef þú vilt ekki hætta að drekka súra drykki?
-Drekktu drykkinn hratt, ekki súpa á honum yfir lengri tíma
-Reyndu að drekka súra drykki eins sjaldan og þú getur yfir daginn
-Ekki bursta tennur í 30 mín á eftir
-Fáðu þér vatnssopa á eftir súrum drykk. Það hjálpar líka sýrustiginu að narta í ost.
-Notaðu sýruhemjandi lyf ef þú ert með krónískt bakflæði.
-Notaðu bithlíf á nóttu ef þú gnístir tönnum
-Farðu reglulega í eftirlit hjá tannlækni. Hann getur sagt þér hvort þín neysla hafi áhrif á tennurnar þínar.
Hvernig get ég vitað hvort drykkur er skaðlegur?
Þú getur séð á innihaldslýsingu drykksins hvort hann er skaðlegur tönnum. Ef hann inniheldur sítrónusýru eða fosfórsýru er hann glerungseyðandi. Stundum er E númer tiltekið í staðinn. Þá er E330 sítrónusýra og E338 fosfórsýra. Í sumum innihaldslýsingum eru sýrurnar nefndar sýrustillar.
Kolsýra ekki ekki glerungseyðandi. Sódavatn, til dæmis blár kristall, er því skaðlaus. Kristall með bragði, til dæmis sítrónukristall og limekristall eru líka í lagi. Bragðefni þeirra eru ekki glerungseyðandi. Ef búið er að bæta einhverju meira í drykkinn er hann yfirleitt orðin glerungseyðandi og/eða getur valdið tannskemmdum.
Allir aðrir gosdrykkir og orkudrykkir eru skaðlegir og innihalda annað hvort sítrónusýru eða fosfórsýru. Sama gildir um safa sem eru í eðli sínu súrir. Mikil glerungseyðing hefur einnig hefur sést eftir neyslu sítrónuvatns sem hefur verið tískubylgja.
Kaffi er ekki eða mjög lítið glerungseyðandi, mjólk er góð og vatn er best.
Ef drykkurinn inniheldur sykur getur hann valdið tannskemmdum. Veldu sykurlausa drykki fram yfir sykraða.
Gott er að hafa í huga að gosdrykkir, orkudrykkir og íþróttadrykkir eru nútíma fyrirbæri sem eru okkur ekki nauðsynleg. Það eru engin efni í þessum drykkjum sem við þurfum sérstaklega á að halda eða getum ekki fengið úr fæðunni. Óhófleg neysla þeirra er okkur skaðleg, hvort sem við lítum til sýruinnihalds, yfirgengilegs magns koffíns, sykurs eða gervisætu. Það er ekkert eðlilegt við það að ruslafötur íþróttahúsa séu fullar af dósum undan orkudrykkjum og íþróttadrykkjum. Drekkum vatn við þorsta, fáum okkur einn og einn kaffi eða tebolla og gefum börnunum mjólkurglas. Allt annað ætti að vera einungis til hátíðarbrigða, að minnsta kosti þegar um börn og unglinga er að ræða.