Kjálkaliðsvandamál og bitskinnur

Verkir í andliti, stífir kjálkavöðvar, smellir og brak í kjálkaliðum eru algeng vandamál sem geta haft áhrif á lífsgæði þín. Streita, álag og slæmir vanar eru algeng orsök þessara einkenna. Tannlæknirinn þinn getur gefið þér góð ráð og í sumum tilfellum látið útbúa sérsmíðaða bitskinnu fyrir þig til að sofa með.

illustration of someone using a mouth guard to stop snoring.

Góð ráð

Ef kjálkavandamál ber brátt að getur verið um tímabundið álag að ræða sem lagast þegar aðstæður breytast. Í þessari stöðu er gott að gera æfingar og teygjur. Ef verkir eru miklir ráðleggur tannlæknir stundum bólgueyðandi verkjalyf. Oft eru verkir þó meira viðvarandi og viðhaldast af streitu og ávanahegðun sem veldur spennu á svæðinu. Samanbitspressa, gnístur, röng líkamsstaða, vöðvabólga og röng kynging eru allt þættir sem geta viðhaldið kjálkaspennu. Oft er ástandið afleiðing langvarandi streituástands í líkamanum.

Hér eru nokkur góð ráð sem geta gagnast þér:

Samanbit

Tennur eiga ekki að bíta saman nema þegar þú borðar. Reyndu að halda kjálkum í hvíldarstöðu, forðastu að geispa stórt og tyggja mikið og ekki harða eða seiga fæðu.

Haltu góðri líkamsstöðu

Vertu í stól með góðum stuðningi þegar þú situr við vinnu. Taktu þér hlé öðru hvoru til að leiðrétta líkamsstöðu. Sittu eins upprétt(ur) og hægt er þegar þú ekur bíl, horfir á sjónvarp og situr við lestur eða aðra iðju. Notaðu lítinn púða til að styðja við bakið. Til að laga líkamsstöðu þína er gott að standa upp, setja brjóstkassann fram og herðablöð aftur og þrýsta herðablöðum saman. Líkamsstaða er oft mjög slæm við símanotkun, hafðu það í huga.

Góður svefn er mikilvægur heilsu þinni

Til að minnka álag á kjálkasvæðið er best að sofa á bakinu og nota góðan kodda til að styðja við hálsinn. Forðastu að sofa á maganum og ef þú sefur á hlið er verra að halda hönd undir kinn. Það getur verið góð hugmynd að skipta um hlið í rúminu.

Bakstrar

Ef þú ert skyndilega með mikla verki og stífleika er gott að nota kalda bakstra en ef verkir eru meira langvinnir gagnast heitir bakstrar betur. Legðu bakstur við kjálkann í 15–20 mínútur í senn.

Minnkaðu streitu

Hugleiðsla, yoga og önnur iðja sem tekur hugann frá streitu dagsins hjálpar þér að slaka á andlitsvöðvum. Langvarandi streituástand viðheldur kjálkaspennu og getur haft mjög slæmar afleiðingar.

Ávanar

Ertu með slæma vana sem þú getur hætt eða minnkað? Reyndu að taka eftir hvort þú:

  • nagar neglur
  • nagar kinnar
  • hvílir kjálkann í hendinni
  • pressar saman tönnum
  • gnistir tönnum
  • þrýstir tungu að tönnum og spennir andlitsvöðva um leið
  • Notar símann þinn of mikið

Taktu eftir hvort þú sért með einhverja þessa ávana og ræddu þá við tannlækninn þinn.

Æfingar og teygjur

Æfingar og teygjur geta linað verki og aukið hreyfigetu. Ekki gera æfingar eða teygjur sem valda þér sársauka.

  • Slakaðu á kjálkanum og hafðu bil milli efri og neðri góms. Opnaðu munninn rólega eins mikið og þú getur og horfðu upp á meðan. Haltu opnu í nokkrar sekúndur og lokaðu svo rólega. Endurtaktu nokkrum sinnum.
  • Með lokaðan munn en bil milli efri og neðri góms, hreyfðu kjálkann til vinstri og horfðu um leið til vinstri. Ekki snúa höfðinu. Haltu þessari stöðu í nokkrar sekúndur og farðu svo aftur í upphafsstöðu. Endurtaktu í hina áttina og nokkrum sinnum í hvora átt.
  • Rúllaðu tungunni aftur í kokið og opnaðu munninn rólega eins mikið og þú getur um leið og þú horfir upp. Endurtaktu nokkrum sinnum.
  • Þvinguð teygja – Teygðu munn í sundur með löngutöng á kanti neðri góms tanna og þumal á kanti efri góms tanna. Haltu í nokkrar sekúndur. Endurtaktu með hinni hendinni.
  • Þvinguð opnun – Haltu þumli undir höku og þrýstu hökunni niður á móti. Þrýstu þumlinum undir hökuna meðan þú opnar munninn rólega og heldur opnu í nokkrar sekúndur.
  • Þvinguð lokun – Haltu þumlinum undir hökunni og settu vísifingur sömu handar í grófina milli höku og neðri varar. Þrýstu varlega á meðan þú lokar munninum.
  • Þvinguð hliðarhreyfing – Haltu tveimur fingrum við kjálkann öðru megin meðan þú hreyfir hann rólega í sömu átt. Farðu í upphafsstöðu og endurtaktu í hina áttina. Gerðu nokkrum sinnum í hvora átt.

Bitskinnur

Samanbitspressa og gnístur í svefni eru þættir sem erfitt getur verið að hafa áhrif á en geta valdið skaða á tönnum og stífleika og verkjum í andliti. Ef stífleiki er mikill getur myndast tog í liðþófann í kjálkaliðnum og hann afmyndast eða færist úr stað. Þá fer að smella í kjálkaliðnum. Marr eða brak í kjálkalið getur verið merki um bólgu eða slit.
Til að minnka næturspennu getur verið nauðsynlegt að fá svokallaða bitskinnu.
Bitskinna er gómur úr glæru plasti sem er smellt yfir tennurnar. Gómurinn er nokkuð þykkur undir bitköntum þannig að þú getur ekki bitið saman alla leið. Þetta hlífir tönnum við gnísti og sliti og minnkar álag á kjálkavöðva og liði. Skinnan er aðallega notuð á nóttu en það má einnig nota hana að degi til eða hluta úr degi ef álag er mikið.

Við hverju máttu búast?

Bitskinna bætir líðan meirihluta einstaklinga sem þjást af spennu og þreytu í kjálkum. Einnig ver skinnan tennurnar fyrir þeim skaða sem tanngnístur veldur á tannvef. Meðan flestir venjast því strax að sofa með skinnuna í munninum eru sumir lengur að venjast.
Ef skinnan veldur þrýstingi á einstaka tennur eða öðrum óþægindum er best að leita til okkar og við lagfærum það.
Það er eðlilegt að bittilfinningin sé undarleg þegar skinnan er tekin niður að morgni. Það lagast fljótt og hefur engin áhrif til lengri tíma.
Einnig getur munnvatnsflæði aukist töluvert en það lagast með tímanum.
Taktu bitskinnuna með þér þegar þú ferð til tannlæknis. Tannlæknirinn skoðar bitskinnuna í reglulegu eftirliti og stundum þarf að aðlaga hana að nýjum viðgerðum á tönnum.

Hvernig fer meðferðin fram?

Ef tannlæknir metur að bitskinna geti gagnast þér eru efri og neðri gómur skannaðir í þrívíddarskanna ásamt samanbiti þínu. Þessar upplýsingar eru svo sendar á tannsmíðaverkstæði þar sem bitskinnan er útbúin. Þegar hún er tilbúin kemur þú aftur til tannlæknisins sem mátar skinnuna og lagar hana til ef þarf. Þegar allt passar færð þú bitskinnuna með þér heim og byrjar að nota hana.

Hvað kostar bitskinna?

Til eru nokkrar mismunandi tegundir bitskinna og því er verðið aðeins mismunandi. Dæmi um verð á bitskinnu getur þú séð í verðlistanum okkar. Tannlæknirinn þinn getur gefið þér nákvæmt verð á þinni bitskinu fyrirfram.
Bitskinnur eru að fullu endurgreiddar af sjúkratryggingum fyrir börn og að hluta til fyrir öryrkja og eldri borgara.

Gæti bitskinna hentað þér?

Okkur hjá Tannlæknaþjónustunni langar að hjálpa þér að bæta svefngæði og líðan. Ef þú vilt góð ráð varðandi kjálkaspennu eða heldur að bitskinna gæti verið lausnin fyrir þig ertu velkomin(n) að panta tíma hjá okkur. Því fylgir engin skuldbinding um meðferð. Við hlökkum til að aðstoða þig!