Tannplantar
Tannplanti, eða implant eins og það er stundum kallað, er skrúfa úr títaníum málmi sem kemur í stað tannrótar eða er notað sem festa fyrir stærri tanngervi svo sem heilgóma eða brýr. Tannplantar eru algeng lausn við tannvöntun hvort sem um er að ræða eitt tannbil eða stærri tannlaus svæði.
Tannplantar
Tannplanti, eða implant eins og það er stundum kallað, er skrúfa úr títaníum málmi sem kemur í stað tannrótar eða er notað sem festa fyrir stærri tanngervi svo sem heilgóma eða brýr.
Ef þig vantar eina eða fleiri tennur getur tannlæknirinn þinn komið tannplanta fyrir í kjálkabeininu með skurðaðgerð. Beinið grær að tannplantanum með tímanum svo hann verður fastur og myndar hald fyrir einstaka tannkrónu eða stærri tanngervi sem eru skrúfuð ofan á tannplantana.
Tannplantar henta fyrir stök tannlaus bil eða stærri tannlaus svæði. Einnig má nota tannplanta til að halda uppi fastri heilbrú hjá tannlausum einstaklingum, eða sem festa fyrir smellur undir gervitönnum.
Hvaða kosti hafa tannplantar?
- Þeir eru varanleg lausn við tannmissi
- Þeir hafa náttúrulegt útlit krónu eða brúar
- Þeir eru föst lausn fyrir stakar krónur og brýr
- Eykur stöðuleika og festu lausra tanngerva
Hvenær er þörf fyrir tannplanta?
Tannlæknirinn þinn kann að mæla með tannplöntum ef:
- Þú ert að tapa tönn vegna áverka, tannskemmda eða tannhaldssjúkdóma
- Þú ert með tannlaus bil þar sem aðliggjandi tennur eru heilbrigðar
- Þú ert með stærri tannlaus bil og vilt ekki lausa tannparta eða góma
- Þú vilt aukna festu og stöðugleika fyrir gervitennur
Geta allir fengið tannplanta?
Flestir með eðlilegt og gott kjálkabein geta fengið tannplanta, ef almenn heilsa leyfir. Tannlæknirinn spyr um heilsufarssögu, lyfjainntöku og undirliggjandi sjúkdóma til að meta hvort meðferð sé viðeigandi.
Röntgenmyndir og stundum þrívíddarmyndir eru teknar til að meta beinmagn, gæði og nálægð við taugar, æðar og kinnhol. Stundum þarf beinaukandi aðgerðir fyrir tannplantaaðgerðina.
Hversu lengi dugir tannplanti?
Tannplantar endast almennt mjög lengi, jafnvel ævilangt, en góð munnhirða og almennt heilbrigði hefur mikið að segja. Smíðin (króna eða brú) sem sett er á tannplantann getur þurft endurnýjun með tímanum.
Helstu áhættuþættir:
- Léleg tannhirða
- Reykingar
- Lélegt bein í kjálka
- Veikt ónæmiskerfi og sjúkdómar
- Tannhaldssjúkdómar (mikilvægt að meðhöndla áður en meðferð fer fram)
Hvernig undirbý ég mig fyrir tannplantaaðgerð?
- Tannlæknir fer yfir heilsufar og lyfjainntöku
- Ef sýklalyf eru ráðlögð, taka þau samkvæmt leiðbeiningum
- Aðgerðir fara fram í staðdeyfingu (engin þörf á að fasta)
- Láttu tannlækninn vita ef þú ert kvíðinn eða hefur áður fengið óþægindi við staðdeyfingu
- Fylgdu leiðbeiningum eftir aðgerð til að tryggja góða græðslu
Hvernig fer meðferðin fram?
- Aðgerð fer fram á tannlæknastofu í staðdeyfingu
- Tannholdi er lyft og kjálkabeinið undirbúið fyrir tannplantann
- Tannplantinn er skrúfaður í beinið og tannholdinu lokað með saumum
- Bein grær að plantanum á 3-6 mánuðum
- Þegar plantinn er gróinn er tekin þrívíddarskönnun af honum og aðliggjandi tannholdi. Króna eða brú er smíðuð og þegar allt passar er smíðin skrúfuð föst á plantann.
Við hverju má búast eftir aðgerðina?
- Verkir fyrstu daga (getur þurft væg verkjalyf)
- Bólga og smávægileg blæðing fyrsta sólarhringinn
- Forðastu áreynslu og borðaðu mjúka fæðu fyrstu daga
- Notaðu bakteríudrepandi munnskol í tvær vikur
- Burstaðu varlega í kringum svæðið fyrstu daga
- Reykingar og veip eru frábendingar (hætta skal í að minnsta kosti eina viku fyrir og 8 vikur eftir aðgerð)
Hvenær á að hafa samband við tannlækninn?
- Við viðvarandi blæðingu eða myndun blóðlifur í munni
- Ef verkir minnka ekki eða versna eftir 3-5 daga
- Ef þú finnur fyrir sýkingareinkennum (hiti, graftarmyndun, bólga)
- Ef planti eða lokskrúfa virðist laus
- Ef þú átt erfitt með að kyngja eða anda
- Ef þú ert óörugg(ur) og þarft svör við spurningum
Get ég fengið bráðabirgðalausn meðan plantinn grær?
Bráðabirgðalausn fer eftir staðsetningu tannleysis. Stundum er bráðabirgðatönn gerð samfara aðgerðinni eða lítill gómur útbúinn fljótlega eftir aðgerð. Gervitennur geta þurft að vera til hliðar í nokkra daga.
Hvað kostar tannplanti?
Verð skiptist í tvennt, tannplantann sjálfan og aðgerðina annars vegar og smíðina ofan á hann hins vegar. Skoðun, röntgenmyndir og aðrar rannsóknir eru oft ekki innifaldar. Sjúkratryggingar geta veitt styrk til aldraðra og öryrkja. Einnig í sumum tilvikum meðfæddra tannvöntunar eða slysa.
Heldur þú að tannplanti geti verið lausnin fyrir þig?
Við hjá Tannlæknaþjónustunni viljum hjálpa þér að bæta lífsgæði og útlit. Komdu í skoðun til að fá mat og ráðleggingar. Skoðun er án skuldbindingar.
Við notum einungis viðurkennda tannplanta frá leiðandi framleiðanda. Þú ert í öruggum höndum hjá okkur.