Tannúrdráttur
Tannúrdráttur getur verið nauðsynlegur þegar tönn er skemmd, sýkt, laus eða veldur öðrum vandamálum. Hér útskýrum við helstu ástæður fyrir tannúrdrætti, hvað má búast við í aðgerðinni og hvernig best er að hlúa að sárinu eftir á.
Af hverju þarf að draga tennur?
- Tannskemmdir. Ef tennur eru með djúpa skemmd og mikið niðurbrotnar er stundum ekki hægt eða ráðlegt að laga þær með fyllingu, rótfyllingu eða krónu.
- Tannhaldssjúkdómar. Langt genginn tannhaldssjúkdómur brýtur niður bein kringum tennur þannig að ekkert hald verður fyrir þær og þær losna. Þetta gengur ekki til baka og oft þarf að draga tennur vegna þessa.
- Rótarbólga eða sýking í kringum tönn sem ekki er hægt að meðhöndla með rótfyllingu.
- Brotnar, sprungnar eða klofnar tennur er oft ekki hægt að laga og verður að draga.
- Hálfuppkomnar tennur. Þetta á oft við um endajaxla. Tennur sem komast ekki uppúr tannholdi eru oft til vandræða vegna endurtekinna sýkinga og þarf að draga.
- Plássleysi. Stundum þarf að fjarlægja tennur í sambandi við tannréttingar þar sem þrengsli eru í gómnum.
Tannlæknirinn þinn metur í hverju tilfelli fyrir sig hver besta meðferðin er. Til þess þarf hann að skoða og meta ástandið í munninum og taka röntgenmyndir.
Undirbúningur fyrir tannúrdrátt
-Áður en aðgerð er framkvæmd fer tannlæknir vandlega yfir heilsufarssögu þína og lyfjainntöku. Ef tannlæknir mælir með sýklalyfjum fyrir aðgerð er mikilvægt að taka þau samkvæmt fyrirmælum.
-Tannúrdráttur er gerður í staðdeyfingu. Ræddu við tannlækninn þinn ef þú hefur upplifað ónot við staðdeyfingu.
-Gott er að láta tannlækninn vita ef þú finnur fyrir miklum kvíða fyrir aðgerðinni. Við getum gefið væg kvíðastillandi lyf ef þörf er á.
-Tannúrdráttur tekur venjulega um 20-40 mínútur en stundum þarf að gera skurðaðgerð til að ná allri tönninni úr. Þá tekur það lengri tíma og eftirköst geta verið meiri. Sjá kaflann um endajaxlaaðgerðir, leiðbeiningar sem þar er að finna eiga einnig við um tannúrdrátt með skurðaðgerð.
Við hverju má búast eftir einfaldan tannúrdrátt?
-Mögulega getur verið smávægileg blæðing fyrsta sólarhringinn. Athugaðu að lítið magn blóðs getur litað munnvatn svo lítur út fyrir að blæðing sé meiri en hún er í raun og veru.
-Bólga og verkur getur verið fyrstu dagana en fer svo batnandi
-Ef tannlæknirinn þinn hefur saumað yfir úrdráttarsárið getur þurft að taka saumana eftir viku. Oftast eru þó notaðir saumar sem eyðast og þá þarft þú ekki að koma í saumatöku.
-Að aðgerð lokinni er nauðsynlegt að kynna sér vel leiðbeiningar eftir aðgerð.
Eftir einfaldan tannúrdrátt er gott að:
- Taka því rólega fyrstu tvo dagana og forðast líkamlega áreynslu.
- Vera á fljótandi eða mjúkri fæðu í að minnsta kosti tvo daga eftir aðgerðina, jafnvel lengur. Ekki drekka með röri vegna hættu á að soga upp blóðstorkuna í sárinu.
- Taktu þau lyf sem tannlæknirinn þinn ráðleggur þér.
- Ef blæðir er gott að eiga til grisjur. Bleyttu grisju, staðsettu hana yfir sárið og bíttu saman. Haltu þrýstingi í um 30 mínútur. Það er gott að leggjast út af á meðan.
- Kaldur bakstur hjálpar ef bólga og verkir eru í uppsiglingu.
- Ólyfseðilskyldar verkjatöflur virka vel eftir einfaldan tannúrdrátt. Ibufen og paratabs virka vel saman en tannlæknirinn þinn ráðleggur þér hvað er best fyrir þig.
- Notaðu bakteríudrepandi munnskol í tvær vikur eftir aðgerð ef tannlæknir ráðleggur það.
- Reyndu að viðhalda góðri tannhirðu en þó má ekki bursta beint á svæðið fyrstu dagana. Burstaðu í átt frá sárinu.
- Reykingar og veip seinka græðslu og auka verulega líkurnar á eftirköstum. Slepptu reykingum og veipi fyrstu dagana eftir aðgerð.
Hafðu samband við tannlækninn þinn ef:
- Fersk blæðing er viðvarandi og /eða þú finnur að blóðlifur er að myndast á svæðinu.
- Þú upplifir mikla verki sem ganga ekki niður við notkun á verkjalyfjum.
- Þú upplifir einkenni sýkingar svo sem hita, graftarmyndun og ef þú bólgnar upp aftur.
- Ef verkir aukast 3-5 daga eftir aðgerð.
- Ef þú upplifir doða á svæðinu.
- Ef þú á í erfiðleikum með að kyngja eða finnst erfitt að anda.
Flestir jafna sig á 7-10 dögum eftir tannúrdrátt og líkur á eftirköstum minnka verulega sé leiðbeiningum fylgt.
Hvað kostar tannúrdráttur?
Kostnaður við tannúrdrátt er misjafn eftir erfiðleikastigi. Einfaldur úrdráttur er ódýrari en flóknari aðgerð. Dæmi um kostnað getur þú séð í verðlistanum okkar. Tannlæknir getur gefið þér upp áætlaðan kostnað fyrirfram. Skoðun og röntgenmyndataka er ekki innifalin í verðinu. Deyfing, eftirskoðun og saumataka, ef þarf, er innifalin.
Sjúkratrygginar greiða að fullu kostnað við úrdrætti hjá börnum og stóran hluta kostnaðar hjá öldruðum og örykjum.
Ert þú með tannverk eða vangaveltur varðandi tannúrdrátt?
Við hjá Tannlæknaþjónustunni höfum áhuga á að hjálpa þér, hvort sem þú ert með hugleiðingar varðandi tannheilsu þína eða fyrirhugaðan tannúrdrátt. Hafðu samband við okkur til að fá einstaklingsmiðaðar leiðbeiningar og ráð.