Gervitennur
Gervitennur koma í stað eigin tanna þegar allar tennur annars eða beggja góma hafa tapast. Ekki má búast við að gervitennur þjóni jafn vel og eigin tennur en sem betur fer venjast flestir því að nota þær með tímanum. Jákvætt hugarfar einstaklingsins og þekking og leikni tannlæknisins skipta þar miklu máli.
Notkun gervitanna
Gert er ráð fyrir að gervitennur séu notaðar allan sólarhringinn. Þó kann munnurinn að þarfnast hvíldar frá öðrum eða báðum gómum, sérstaklega þegar bitálag er mikið. Þá er ráðlagt að sofa ekki með gómana eða hvíla bitálag með því að sleppa því að vera með neðri góminn yfir nóttina. Mikilvægt er að geyma tennurnar ekki þurrar því þá geta þær orpist. Mælt er með því að geyma þær í vatni.
Byrjunarörðugleikar
Þegar hafin er notkun gervitanna finnst mörgum þær vera lausar og velta og jafnvel sporðreisast þegar tuggið er. Fæðan festist við tennurnar og fer undir þær. Munnvatnsrennsli eykst og tal verður óskýrara. Fólki finnst tennurnar fyrirferðarmiklar, þröngt er um tungu og klígja er algeng.
Eftir því sem vöðvar andlitsins og tunga læra að styðja betur við tennurnar sitja þær betur. Einnig þarf að æfa framburð þeirra hljóða sem erfiðust reynast, til dæmis með því að lesa upphátt. Ef vandamál eru viðvarandi er ráðlagt að ræða þau við tannlækninn.
Útlit
Þegar þú færð nýjar gervitennur eða jafnvel gervitennur í fyrsta sinn kann þér að virðast útlit þitt nokkuð ankanalegt. Oft myndast spenna kringum munn og andlitsdrættir verða stífir og þandir. Það tekur nokkra daga fyrir andlitsvöðvana að venjast nýjum tönnum og færist þá andlitið aftur í eðlilegt horf. Stundum getur þurft að gera smá breytingar á gervitönnunum sem hjálpa til við þetta. Oft verður fólk mjög gagnrýnið á útlit sitt við þessar aðstæður og tekur eftir smáatriðum sem það hefur ekki velt fyrir sér áður. Mikilvægt er að ræða við tannlækninn ef einhverjar spurningar vakna sem varða útlitið.
Þótt oft sé hægt að ná fram töluverðri útlitsbætingu með nýjum gervitönnum í stað gamalla og slitinna, skal varast að hafa of miklar væntingar. Hægt er að ná fram ákveðinni fyllingu í andlit og hækka bit sem oft hefur jákvæð áhrif á útlit. Miklar hrukkur, til dæmis á efri vör, er varasamt að reyna að laga með gervitönnunum, til eru aðrar áhrifameiri leiðir til þess sem lýtalæknar ráða yfir.
Tygging
Í byrjun getur verið örðugt að neyta matar með gervitönnunum. Velja skal auðtuggna fæðu og skera hana í smáa bita. Tyggja skal hægt í báðum hliðum munnsins samtímis og alls ekki með framtönnunum. Forðast ber seiga, harða eða límkennda fæðu. Fæstir geta bitið í sundur fæðu með framtönnunum í byrjun og sumir aldrei. Heppilegra er að bíta sundur fæðuna í hliðunum en varast að toga í fæðuna um leið.
Særindi
Það tekur nokkrar vikur að venjast nýjum gervitönnum og algengt er að nuddsár myndist á gómhryggjum undan tönnunum. Ávalt skal leita til tannlæknis ef særindi myndast. Oft þarf að fræsa úr gervitönnunum til að létta á særindum og stundum þarf að koma í nokkur skipti. Slík þjónusta er innifalin í eitt ár eftir smíði gervitanna hjá Tannlæknaþjónustunni.
Umhirða gervitanna
Gervitennur þarf að hreinsa með þar til gerðum hreinsiefnum tvisvar á dag. Til eru sprey sem eru ætluð til að hreinsa plastið og koma í veg fyrir að sveppagróður og önnur óhreinindi nái fótfestu í því. Mælt er með daglegri notkun slíkra hreinsiefna. Spreyað er á gervigómana að utan og innanverðu og burstað yfir með stífum bursta og tennurnar svo skolaðar með vatni. Ekki má nota mjög heitt vatn. Slímhúð munnsins og tungan er líka burstuð með mjúkum bursta áður en gervitönnunum er komið fyrir aftur í munninum. Hægt er að nota handsápu til að hreinsa tennurnar en hún hefur ekki sömu virkni. Ekki má nota venjulegt tannkrem þar sem það rispar plastið. Til eru hreinsiefni til að leysa upp tannstein og fastari óhreinindi og einnig má nota daufa edikblöndu í þeim tilgangi. (1 msk í glas af vatni). Allar vörur sem þarf til hreinsunar á gervitönnum fást á stofum Tannlæknaþjónustunnar og í apótekum.
Tannplantar
Það er staðreynd að fólki gengur misvel að aðlagast notkun gervitanna. Sérstaklega erfitt getur reynst að venjast gervitönnum í neðri góm þar sem festa þar er oft síðri en í efri góm. Hægt er að græða skrúfur, svokallaða tannplanta, í gómhrygg neðri góms. Smellum er komið fyrir á tannplöntunum og í gervitönnunum og þar með er komin góð festa. Leitaðu frekari upplýsinga hjá þínum tannlækni.
Eftirlit
Misjafnt er hversu lengi gervitennur duga einstaklingnum. Með tímanum rýrna gómhryggirnir og tennurnar fara að passa verr. Einnig slitna sjálfar tennurnar og bit lækkar. Mikilvægt er að leita reglulega til tannlæknis til að láta meta ástandið. Illa passandi gervitennur auka á rýrnun gómhryggjanna og gerir erfiðara að smíða nýjar tennur sem sitja vel.
Þegar smíðaðar eru tennur beint á úrdráttarsár , svo kallaður blóðgómur, þarf oftast að fóðra góminn 6-8 mánuðum seinna og í einstaka tilfellum jafnvel fyrr. Stundum verður rýrnun svo mikil að smíða þarf nýjar tennur en það er sjaldgæft.
482-3333 mottaka@tannalfur.is