Hvenær á barn að hætta með snuð?

24. maí 2025

kid smiling at the dentist

Snuð eru frábær tól til að róa börn.  Þegar barn sýgur hægist á hjartslætti, blóðþrýstingur lækkar og streita minnkar.  Snuð hugga börn og hjálpa þeim að sofna.  Það hefur meira segja verið sýnt fram á í rannsóknum að notkun snuðs er einn af þeim þáttum sem geta minnkað hættu á vöggudauða hjá ungabörnum að 4 mánaða aldri.

Hins vegar er alltaf spurningin; hversu lengi eiga börn að nota snuð, hvenær er besti tíminn til að venja þau af snuðnotkun?

Það eru skiptar skoðanir á því hversu gott eða slæmt það er að nota snuð fram eftir aldri.  Á vesturlöndum hafa ráðleggingar verið á þá lund að góður aldur til að hætta sé 2-4 ára.  Hins vegar hefur umræða um skaðleg áhrif snuðnotkunar eftir vissan aldur verið háværari á síðustu árum og þá er algengt að talað sé um að hætta snuðnotkun í síðasta lagi um 12-18 mánaða aldur.  

Í þessari grein dreg ég fram nokkra þætti um snuðnotkun og hugsanleg skaðlega áhrif snuðnotkunar frameftir aldri.

Hvenær á að kynna barnið fyrir snuðinu?

Ráðlagt er að bíða með að kynna barnið fyrir snuði þangað til brjóstagjöf er komin í fastar skorður, oft um eins mánaða aldur.  Ef barnið notar mikla orku í að sjúga snuð er minni orka eftir til að sjúga brjóstið og fá næringu.  Hætta á sogvillu er líka til staðar ef barnið fær snuð of snemma, það er mjög ólíkt að sjúga brjóst eða sjúga snuð.

Mesta sogþörfin er fram að 6-8 mánaða aldri.  Á þeim tímapunkti er auðveldast að taka snuðiðaf barninu, það er ekki orðið tilfinningalega háð því.  Um níu mánaða aldur byrja að myndast tilfinningatengsl við snuðið og hætta á kvillum tengdum notkun þess eykst.  Ef barnið er með minnkandi sogþörf og sýnir snuðinu minni áhuga, byrjar jafnvel að naga snuðið meira en að sjúga það er kominn tími til að venja barnið af því.

Hvaða kvillar geta fylgt snuðnotkun?

Fáir ókostir fylgja snuðnotkun hjá ungabörnum, þvert á móti getur snuðið verið mjög hjálplegt að róa barnið uppfylla sogþörf þess.  Eftir því sem barnið notar snuð lengur fram eftir aldri eykst hættan á neikvæðum afleiðingum notkunarinnar svo sem:

-Barnið er háð snuðinu til að hugga sig, líka þegar það er vakandi.

-Barnið vaknar oft á nóttu þegar snuðið hefur fallið úr munninum

-Aukin tíðni eyrnabólgu, sérstaklega eftir 6 mánaða aldur

-Hefur áhrif á talið ef notað í vöku

-Hefur áhrif á gómlag og samanbit tanna.

Opið bit getur myndast sem einnig getur haft áhrif á framburð málhljóða.   Opið bit lagast oftast þegar snuðnotkun er hætt.  Hins vegar hefur gómurinn stundum aflagast það mikið að samanbit jaxla skekkist og þarf að lagfæra seinna með tannréttingu.  Hættan eykst eftir því sem barnið er lengur með snuð.

Þegar litið er á kosti og galla þess að barn sé með snuð frameftir aldri ráðleggjum við  að venja barn af snuðnotkun um 12 mánaða aldur eða fyrr.  Gott er byrja á að minnka notkun og tengja notkunina við lúr og svefn til að síðan taka skrefið alla leið og taka snuðið alfarið burt.  

Ef von er á systkini er nauðsynlegt að venja barnið af snuðinu áður en systkinið kemur í heiminn.  Annars getur orðið mjög erfitt að stíga skrefið þegar komið er annað lítið barn sem fær að nota snuð.

Hvernig á að venja barn af snuði?

Margar aðferðir eru til að venja barn af snuði.  Internetið er fullt af góðum ráðum til foreldra sem eru í þeirri stöðu að svipta barnið þessum góða vini.  Í flestum tilvikum,  sérstaklega þegar börn eru orðin 9-12 mánaða eða eldri er best að trappa notkunina niður með því að byrja á því að tengja snuðið einungis við lúr og svefn.  Það fer síðan eftir þroska barnsins hvort semja eigi um ákveðin dag og hvort gefa eigi snuðið, til dæmis í Húsdýragarðinn eða láta jólasveininn hafa það eða eitthvað slíkt.  Sumir foreldrar láta öll snuð hverfa nema eitt og gera síðan lítið gat á túttuna þannig að það hættir að virka.  Það er þá ónýtt og barnið skilur að það þarf að henda snuðinu í ruslið.  

Hjá mjög ungum börnum, 6-8 mánaða, er snuðið einfaldlega látið hverfa.  Það er í lagi að láta barn sem er á brjósti eða tekur pela hætta með snuð.  Það er svo annar handleggur að venja barnið af brjósti eða pela og kemur oft náttúrlega með því að barnið fer að borða fasta fæðu.

Hvaða aðferð sem er notuð er mikilvægt að engin snuð séu í augsýn barnins og að foreldrar séu staðfastir í ákvörðuninni og gefi ekki eftir.  Flestir segja, eftirá, að þetta hafi verið auðveldara og tekið styttri tíma en þeir áttu von á.  

Fréttir, ráð og fróðleikur

Langar þig að fræðast meira um tannlækningar eða munnheilsu almennt? Hér finnur þú blöndu af reynslusögum sjúklinga, fræðandi greinum og gagnlegum upplýsingum. Góða lestur!

Endurgreiðslur sjúkratrygginga vegna tannlækninga

Sjúkratryggingar endurgreiða stóran hluta tannlækninga barna, aldraðra og öryrkja samkvæmt samningum við Tannlæknafélag Íslands. Allar greiðslur fara fram rafrænt á stofunni, þannig að þú greiðir aðeins þann hluta sem fellur á þig. Fullorðnir 18–67 ára greiða tannlækningar að fullu sjálfir, en sérstakar reglur gilda um endajaxlaaðgerðir, tanngervi og meðferðir vegna slysa eða meðfæddra galla.

1.9.2025
Lesa meira
Illustration of dry mouth.

Munnþurrkur

Munnþurrkur (xerostomia) er ástand þar sem munnvatnsframleiðsla er af einhverjum orsökum minni en hún á að vera og í alvarlegum tilfellum, engin. Einn af hverjum fimm fullorðnum þjást af munnþurrki af mismunandi ástæðum.

20.8.2025
Lesa meira
young girl smiling

Ungmennaafsláttur

Þegar ungmenni ná 18 ára aldri breytist margt, meðal annars það að þau þurfa sjálf að standa straum af kostnaði við tannlækningar. Á þessum aldri getur verið freistandi að verja peningunum í aðra hluti sem virðast skemmtilegri en reglulegt eftirlit hjá tannlækni.

8.8.2025
Lesa meira
energy drink

Orkudrykkir og tannheilsa

Orkudrykkir hafa orðið mjög vinsælir, sérstaklega meðal ungs fólks. Þessir drykkir innihalda sýru, eins og sítrónusýru og fosfórsýru, sem lækka sýrustig í munni og valda glerungseyðingu. Þetta gerir tennur þynnri, mattari og viðkvæmari fyrir skemmdum og næmi. Unglingar með nýlega fullorðinstennur eru sérstaklega viðkvæmir. Til að vernda tennurnar er best að drekka orkudrykki hratt, forðast að súpa þeim lengi, ekki bursta tennurnar strax eftir drykkju og skola með vatni eða borða ost til að jafna sýrustigið.

1.8.2025
Lesa meira