Nikótínpúðar- eru þeir svo slæmir?

Jun 1, 2025

hand holding nicotin pouches

Þú finnur þörfina grípa þig, tekur fram litlu öskjuna og setur púðann undir vörina.  Nikótín streymir fljótt út í blóðrásina.  Þú upplifir róandi tilfinningu þegar fíkninni er fullnægt en í líkamanum fer af stað röð viðbragða sem flest eru langt frá því róandi.  

En hvað er í þessum níkótínpúðum?

-Margir tala um að níkótínpúðar séu tóbakslausir .  Það er nokkuð villandi  þar sem níkótínið sem er í púðunum er unnið úr tóbaksblöðum.   

-Auk þess er í púðunum bindiefni, þykkiefni, salt, matarsódi, bragðefni og sætuefni.  

-Matarsódinn  hækkar sýrustigið og gerir að verkum að nikótínið kemst hraðar út í blóðrásina gegnum slímhúðina.   Það gerir púðana sérstaklega ávanabindandi. 

- Sumir púðar innhalda auk þess efni sem gera þá enn meira ætandi á slímhúð, svo sem lime.

Hvað gera níkótínpúðar við líkama þinn og hvaða áhrif hafa þeir á tann- og munnheilsu?

Nikótínpúðar hafa verið á markaði í um 10 ár og eru því frekar nýjir í sögulegu samhengi.  Það eru margar rannsóknir í gangi á áhrifum þeirra til lengri tíma á heilsu, bæði almenna og munnheilsu.  Notkun nikótínpúða hefur aukist mjög mikið á Íslandi, sérstaklega hjá unglingum og ungu fólki og nú er svo komið að um þriðjungur íslenskra ungmenna nota nikótínpúða og flestir þeirra daglega.  Sérstakar áhyggjur vekur að stúlkur eru í auknum mæli að verða níkótínfíkninni að bráð með notkun púðana og líkur á vandamálum á meðgöngu sem tengd eru nikótínnotkun aukast þá jafnframt.

Áhrif nikótínpúða í munni 

-Sár í slímhúð þar sem púðarnir liggja.  Sár eftir nikótínpúða eru mun verri en þau sem við sjáum eftir munntóbak.  Munntóbak veldur þykknun í slímhúð sem verður oft aðeins hvítleit  með fellingum sem getur svipað til fílshúðar.  Þetta gengur til baka þegar notkun tóbaks er hætt.  Hins vegar eru sár eftir púða rauðleit vegna ætandi áhrifa frá púðunum og geta verið mun lengur að gróa. Í Svíþjóð er í gangi rannsókn þar sem verið er að skoða sár eftir púða sem eru allt að ári að gróa og valda miklum sársauka

-Tannhold eyðist af rótaryfirborði.  Ætandi áhrif púðana skemma tannholdið við tennurnar og það eyðist upp eftir rótinni.  Þetta getur valdið viðkvæmni í tönnum og aukið hættu á skemmdum.  Útlitsáhrif geta einnig verið töluverð

- Hækkað sýrustig í munni getur aukið tannsteinsmyndun þar sem annars myndi ekki myndast tannsteinn, til dæmis á framtannasvæði efri góms, undir tannholdsbrúninni.  Þessi tannsteinn getur verið mjög skaðlegur fyrir stoðvefi tannanna

Áhrif nikótínpúða á almenna heilsu eru töluverð þar sem nikótínið fer út í blóðið og flyst um allan líkamann.  

-Áhrif á heilastarfssemi.   Þeir sem byrja að nota nikótínpúða eru í mikilli hættu að þróa með sér ævilanga fíkn.  Það hefur verið sýnt fram á að nikótínfíkn getur aukið hættu öðrum fíknisjúkdómum.  Þar að auki hefur nikótín, samkvæmt rannsóknum, neikvæð áhrif á hugræna getu svo sem minni, athygli, einbeitingu,nám og hvatastjórnun og getur aukið hættu á geðrænum sjúkdómum

-Aukin áhætta á hjarta og æðasjúkdómum.  Æðarnar stífna og hætta eykst á heilaslagi og hjartaáfalli

-Aukin hætta á krabbameini, fyrst og fremst í vélinda og brisi

-Sykursýki.  Nikótín hefur áhrif á getu líkamans til að stjórna blóðsykri og getur aukið hættu á sykursýki 2

Ef þú ert ekki tilbúin(n) að hætta að nota nikótínpúða en vilt lágmarka áhrif á munnheilsu er gott að hafa í huga:

-Ekki setja púðann alltaf á sama stað í munninum

-Hafðu púðann sem styst í einu í munni

-Veldu púða með sem minnstu nikótíni eða nikótínfría ef þú ert að reyna að hætta

-Passaðu að púðinn liggi ekki á tannholdinu við tennurnar, hann þarf að vera minnst 3 millimetra frá mótum tannholds og tannar

-Passaðu vel upp á tannhirðuna, burstaðu tennur vandlega tvisvar á dag með mjúkum tannbursta og notaðu tannþráð daglega

-Farðu reglulega til tannlæknis sem skoðar slímhúðina

-Veittu slímhúðinni athygli og skoðaðu hana reglulega.  Ef þú færð sár sem aldrei gróa þarftu að fara til tannlæknis

Viltu hætta að nota nikótínpúða?

Nikótínpúðar örva verðlaunakerfi heilans og eru sérlega ávanabindandi þar sem nikótínið fer svo hratt út í blóðrásina.  Það er því erfitt að hætta notkun þeirra þótt viljinn sé fyrir hendi.

Hér koma nokkur ráð fyrir þá sem vilja hætta

-Fylgdu áætlun og trappaðu nikótínið niður kerfisbundið.    Notaðu púða með minna nikótíni og notaðu þá sjaldnar og styttra í einu

-Það eru til nikótínlausir púðar sem geta verið gott hjálpartæki til að venja sig af nikótínfíkn

-Hvað kveikir á nikótínlönguninni?  Spáðu í hvaða aðstæður eru líklegar til að verða erfiðar og gerðu þér áætlun um hvernig þú ætlar að mæta þeim

-Segðu öðrum að þú sért hætt(ur)- það hvetur þig til dáða

-Notaðu peninginn sem þú sparar í eitthvað sem þig langar í

-Njóttu þess hvað þú lítur betur út þegar þú ert ekki með púða undir vörinni

Fráhvarfseinkenni nikótíns eru verst fyrstu 2-4 dagana.  Þá getur þú fundið fyrir kvíða, einbeitingarskorti, þreytu og jafnvel svefnvanda.  Fráhvarfseinkenni eru yfirleitt búin eftir 2- 4 vikur og þá er bara að byrja ekki aftur!  

Fæstir sem byrja að nota nikótínpúða gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að kalla yfir sig.  Fíkn myndast hratt, ekki síst hjá ungmennum með óþroskaðan heila og þá verður hún einnig sterkari.  Það er því eitt ráð sem er það allra besta:

Að byrja aldrei að nota nikótínpúða eða aðrar nikótínvörur!

Fréttir, ráð og fróðleikur

Langar þig að fræðast meira um tannlækningar eða munnheilsu almennt? Hér finnur þú blöndu af reynslusögum sjúklinga, fræðandi greinum og gagnlegum upplýsingum. Góða lestur!

Endurgreiðslur sjúkratrygginga vegna tannlækninga

Sjúkratryggingar endurgreiða stóran hluta tannlækninga barna, aldraðra og öryrkja samkvæmt samningum við Tannlæknafélag Íslands. Allar greiðslur fara fram rafrænt á stofunni, þannig að þú greiðir aðeins þann hluta sem fellur á þig. Fullorðnir 18–67 ára greiða tannlækningar að fullu sjálfir, en sérstakar reglur gilda um endajaxlaaðgerðir, tanngervi og meðferðir vegna slysa eða meðfæddra galla.

9/1/2025
Illustration of dry mouth.

Munnþurrkur

Munnþurrkur (xerostomia) er ástand þar sem munnvatnsframleiðsla er af einhverjum orsökum minni en hún á að vera og í alvarlegum tilfellum, engin. Einn af hverjum fimm fullorðnum þjást af munnþurrki af mismunandi ástæðum.

8/20/2025
young girl smiling

Ungmennaafsláttur

Þegar ungmenni ná 18 ára aldri breytist margt, meðal annars það að þau þurfa sjálf að standa straum af kostnaði við tannlækningar. Á þessum aldri getur verið freistandi að verja peningunum í aðra hluti sem virðast skemmtilegri en reglulegt eftirlit hjá tannlækni.

8/8/2025
energy drink

Orkudrykkir og tannheilsa

Orkudrykkir hafa orðið mjög vinsælir, sérstaklega meðal ungs fólks. Þessir drykkir innihalda sýru, eins og sítrónusýru og fosfórsýru, sem lækka sýrustig í munni og valda glerungseyðingu. Þetta gerir tennur þynnri, mattari og viðkvæmari fyrir skemmdum og næmi. Unglingar með nýlega fullorðinstennur eru sérstaklega viðkvæmir. Til að vernda tennurnar er best að drekka orkudrykki hratt, forðast að súpa þeim lengi, ekki bursta tennurnar strax eftir drykkju og skola með vatni eða borða ost til að jafna sýrustigið.

8/1/2025